15.3.2012 | 12:56
peningar, peningar, peningar
Það er frægt orðatiltæki að peningar geti ekki fært þér hamingju, en úff hvað lífið væri nú einfaldara ef maður ætti slatta af þeim.
Ég er alveg svakalega nísk, ég fæ samviskubit yfir því að kaupa mér smá bland í poka á laugardegi, því peningarnir hefðu nú getað farið í eitthvað annað viturlegra.
Nú er ég að spara fyrir háskólanámi og öllu sem því fylgir og þegar ég hef eitthvað svona ákveðið sem ég er að spara fyrir versnar nískan uppúr öllu valdi, stundum verður hún svo slæm að ég varla tími að kaupa mér að borða... og nú er ástandið í fataskápnum mínum þannig að mig er farið að sárlanga í ný föt, en guð minn almáttugur hvað ég tími því nú ekki, þau eru rándýr. Sem dæmi sá ég auglýstar sokkabuxur á 3000 kr, halló! 3000 f*** kall fyrir einar sokkabuxur, sem í höndunum á böðli eins og mér myndu ekki endast út eitt kvöld. Ég held nú ekki!
Þá fór ég að velta fyrir mér hugmyndinni um samfélag eins og í fornöld þegar peningar voru ekki til, menn stunduðu bara vöruskipti og mér finnst það bara hljóma fjandi vel. Ok, þetta myndi aldrei virka í raun og veru en ég er bara komin með uppí kok af peningum. Það að eiga ekki peninga er rosalega heftandi, og jújú, ef þú ert ríkur er það engin ávísun á hamingju, en þá verður það aldrei vandamál að eiga ekki fyrir einhverju.
Ef ég ætti "endalausa" peninga þá gæti ég farið í Stanford í staðinn fyrir Háskóla Íslands (no offence fyrir HÍ samt), gæti eignast allar þær bækur sem að mig langar í, gæti keypt mér föt þegar mér langaði til, gæti skoðað heiminn, boðið vinum og fjölskyldu hingað og þangað að gera eitthvað skemmtilegt, ásamt því að gefa reglulega peninga til góðgerðarmála.
Eins og ég sé þetta þá eru peningarnir lykillinn að efnislega heiminum, þú þarft svo bara að passa uppá það sjálfur að vera hamingjusamur með því að nota peningana á réttan hátt og lifa lífinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2012 | 21:47
Youtube
Alltaf síðan ég man eftir mér hef ég aldrei getað skilið hvernig fólk (krakkar) geta hangið í tölvunni og horft á youtube-myndbönd í fleiri tíma. Oftast eru þessi myndbönd bara fólk að gera einhverjar fáránlegar æfingar sem enda illa og það er kannski hægt að hlæja að þessu eitthvað aðeins, svipað og America's Funniest Home Video's sem hefur verið stundum á SkjáEinum.
Sjaldnast get ég þó hlegið að þessu, hvað þá að liggja yfir þessu tímunum saman. Og svo ekki sé minnst á peningasóunina, því youtube er ekkert annað en hrúga af erlendu niðurhali sem er rándýrt.
En um síðustu helgi lenti ég í því að vera föst inná youtube að horfa á myndbönd sem falla oft undir það versta sem finnst á youtube, einhver einn gaur situr fyrir framan myndavél og talar við sjálfan sig. Oft bara kjánalegt. Ég datt inná myndbandaseríu af gaur sem er að lesa Twilight bókina og kommentar í leiðinni á hana. Þetta er svo drepfyndið að ég grenjaði liggur við úr hlátri.
"...Edward was sitting in her rocking chair. Which Bella had in her room, 'cause Bella's an old lady..." haha :D
Í dag er þriðjudagur, svo það eru liðnir 3 dagar síðan ég fann þessi myndbönd og ég stend mig að því að langa að horfa á alla seríuna aftur í þriðja skiptið. Ég held ég skilji þetta fólk sem ég fussaði yfir áður, þetta er fíkn. Youtube-fíkn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2012 | 21:48
Áhrif fótboltans...
Ég er mikill áhugamaður um fótbolta og grjótharður stuðningsmaður Manchester United. Í síðustu viku sat ég við tölvuna og horfði á leik Manchester United og Ajax og það sem leiddi að öðru marki Ajax var aukaspyrna sem dæmd var á Patrice Evra fyrir að vera ekki í öðrum skónum sínum!
Jú, það stendur einhverstaðar, í einhverri reglugerð, að maður eigi að hafa skó á báðum fótum við að spila fótbolta, en afhverju í ósköpunum ætti nokkur maður að vilja spila án þess að vera í skóm? Bæði er það óþægilegt, maður hittir boltann verr og fær minni kraft í skotin, plús það að líkurnar á því að einhver stigi á fótinn á þér eru miklar, og það væri varla þægilegt að fá takkana í sig, svo afhverju í ósköpunum gefur dómari aukaspyrnu á það að maðurinn missti skóinn, ákvað að taka við boltanum og senda hann áfram áður en hann færi og klæddi sig í skóinn til þess að stöðva ekki leikinn. Lýsandi leiksins skildi nú ekkert í þessu, en var kannski ekki að velta sér uppúr þessu eins lengi og ég... ég bara fæ ekki skilið hvers vegna dómarinn varð að gefa aukaspyrnu. Og enn verra er það nú að uppúr þessari aukaspyrnu kom mark.
Annað sem hefur verið svolítið að "bögga" mig er reglan um mörk á útivelli. Jújú, bæði þessi atvik eru að fara í taugarnar á mér vegna þess að mitt lið er ekki að hagnast á þeim núna, en þessi útivallarmarkaregla er frekar kjánaleg. Ókei, það er erfiðara að skora mark þegar maður er á útivelli, en þetta er bara svo heimskulegt. Afhverju ekki að nota bara framlengingu ? Og ef þrátt fyrir útivallaregluna kæmi til framlengingar þá er liðið sem er á útivelli í miklu hagstæðari stöðu þegar kemur til framlengingar. Þótt bæði lið skori 1 mark þá vinnur það, því það er á útivelli. Þetta er bara fáránlegt.
En það sem er kannski fáránlegast af öllu, er að ég sé búin að vera með þessar pælingar og rifrildi í hausnum á mér undafarna daga, yfir leikjum sem að ókunnugir karlar spila í öðru landi ...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)